Drengirnir, Garðar, Kristinn og Darri fóru tvisvar út að safna. Fréttastofa náði tali af þeim eftir fyrri söfnunina þar sem þeir sögðu að markmiðið væri að fjármagna spil, leikföng og bangsa handa börnum frá Grindavík.
Aðspurðir um hvers vegna þeir hafi ákveðið að safna fyrir Grindavík svöruðu drengirnir: „Við heyrðum bara frá fréttunum,“ sagði Garðar. „Að það væru sprungur og eitthvað í götunni,“ sagði Darri. „Í Grindavík,“ bætti Kristinn við í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann átjánda nóvember.
Þurftu stóran sendibíl til að skila dósunum af sér
Framganga drengjanna í kvöldfréttatímanum vakti athygli og varð til þess að þeir gátu safnað enn meiru.
„Þetta var alveg rosalega mikið. Eftir umfjöllunina hafði fólk samband og mætti til okkar með poka. Þannig þetta kom nokkuð hratt,“ segir Lovísa Árnadóttir, móðir eins drengsins í samtali við Vísi.
„Við höfðum ekki bílskúrspláss í meira,“ segir hún og útskýrir að það hafi þurft stóran sendibíl til að fara með dósirnar á áfangastað.
Komu upphæðinni upp í hundrað
Með uppátækinu söfnuðu drengirnir 43 þúsund krónum, sem þýðir að þeir hafi safnað rúmlega tvö þúsund dósum og flöskum og farið með í endurvinnsluna.
Kids Coolshop ákvað síðan að leggja sitt lóð á vogaskálarnar og bæta við upphæðina svo hún gæti orðið að hundrað þúsund krónum, og ekki nóg með það heldur gaf verslunin þrjá bangsa með.

Lovísa segir að drengjunum hafi verið vel tekið hjá Rauða krossinum þegar þeir skiluðu 100 þúsund krónunum.
„Viðbrögðin hjá Rauða krossinum voru algjörlega frábær. Það var vel tekið á móti þeim. Þar voru allir svo þakklátir og þeir fengu viðurkenningarskjöl. Það munar um þetta, hundrað þúsund krónur.“