Þrír drengir Eddu Bjarkar eru týndir en sagðir í „öruggum höndum“ af bæði lögmanni hennar og ættingjum. Drengirnir eru tíu ára og svo þrettán ára tvíburar. Enn á að fara fram aðfaraaðgerð til að koma drengjunum í umsjá föður þeirra en Sigríður segir hana ekki geta farið fram á meðan drengirnir eru týndir. Sýslumaður sér um að framkvæma slíkar aðgerðir.
Edda var síðdegis í dag flutt úr fangelsinu á Hólmsheiði af norskum yfirvöldum sem munu flytja hana til Noregs þar sem hún á að mæta í þingfestingu. Þar á hún að svara fyrir þær sakir að hafa flutt þrjá drengi sína til Íslands í mars í fyrra en faðir drengjanna fer með forsjá þeirra. Hún mátti því ekki taka þá til Íslands.
Landsréttur kvað upp úrskurð síðdegis í dag er varðar gæsluvarðhald Eddu Bjarkar og er því ákvörðun um framsal hennar orðin endanleg samkvæmt lögum.
„Við beitum okkur ekki nema við fáum ábendingar um hvar börnin eru. En það er ekkert að frétta hjá okkur eins og er,“ segir Sigríður í samtali við fréttastofu.
Spurð hvort að farið hafi fram mat á vilja barnanna fyrir aðfararaðgerðina sem átti að fara fram í október síðastliðnum segir Sigríður að það sé niðurstaða komin í málinu.
„Það er komin dómsniðurstaða sem segir að þetta eigi að vera svona og við höfum ekki heimild til að fara í endurmat á því. Við höfum það hlutverk að tryggja að dómurinn verði fullnustaður og að farið sé farið eftir niðurstöðu hans.“
Hún segir að embættið framkvæmi aðgerðir sem þessar ávallt þannig að þær hafi sem minnst áhrif á börn og að þeirra hagsmuna sé gætt. Það sé niðurstaða tveggja dómsstiga að föður sé heimilt að taka börnin úr umráðum móður vegna þess að honum hafi verið úrskurðuð forsjá þeirra.
En finnst þér kerfið virka þegar þetta endar svona?
„Kerfið er að virka, en þegar fólk sættir sig ekki við niðurstöðu dómstóla þá verður það til þess að við lendum á þessum stað,“ segir Sigríður og ítrekar að hlutverk sýslumanns sé að koma á lögmætu ástandi.
„Það er ólögmætt ástand núna, þegar börnin eru ekki þar sem þau eiga að vera samkvæmt dómi. Þetta ástand er vegna þess að dómsorði er ekki hlýtt en þetta eru auðvitað erfiðustu málin sem við tökumst á við. Það er alltaf betra að ekki þurfi að koma til svona aðgerða.“