Kerry Hatley fékk bágt fyrir að stöðva ekki bardagann þegar Turner lét höggin dynja á Green þegar hann lá í striganum og var ófær um að verja sig.
„Hann veit að hann gerði mistök í kvöld og líður ekki vel með það svo þetta er óheppilegt,“ sagði White um atvikið. „Þetta var klárlega slæmt stopp.“
Fyrrverandi heimsmeistarinn Michael Bisping gekk enn lengra í gagnrýni sinni á Hatley.
„Hann sneri manninn niður og var laminn af heimsklassa, kraftmiklum bardagakappa. Kerry Hatley er frábær dómari en eftir hverju í andskotanum var hann að bíða? Líf fólks og heilsa þess til frambúðar er í húfi. Þetta var viðbjóðslegt og skammarlegt,“ sagði Bisping sem fjallaði um bardagann á ESPN.
Sjálfur sagðist Turner hafa velt fyrir sér hvort bardaginn hefði átt að vera stöðvaður en óttaðist að Green myndi svara fyrir sig og snúa dæminu sér í vil.
„Bobby er grjótharður kappi. Það er eins og það er. Hann er heill og var eðlilegur eftir bardagann. Við áttum gott spjall svo ég var ánægður með að hann var í góðu ástandi,“ sagði Turner sem hann sinn fjórtánda sigur í 21 bardaga um helgina. Hann hafði tapað tveimur bardögum í röð fyrir viðureignina gegn Green.