„Það er langt síðan ég hef verið eins sár, svekkt, tapsár, pirruð og reið yfir svo mörgu í þessum leik. Margt sem að mér finnst mjög ósanngjarnt og margt fáránlegt stundum. Það var eins og þau kynnu ekki handbolta, ég skildi ekki hvað var í gangi. Við ætluðum okkur ekki í þennan Forsetabikar, við ætluðum í milliriðil,“ segir Perla Ruth.
Þau voru ófá skiptin sem dómaraborðið stoppaði leikinn með athugasemdir við hitt og þetta.
„Mér finnst þau endalaus í hausnum á mér. Allskonar dómar sem voru fáránlegir. Stúkan og allir horfðu á hvorn annan skildu ekki hvað var að gerast,“ segir Perla og hristir hausinn.
„Ég trúi ekki að þetta hafi endað svona og ég var búin að gleyma því í smástund að þær myndu vinna okkur á innbyrðis. Þegar ég fattaði að jafntefli væri þeirra sigur þá hrundi allt.“
Forsetabikarinn er næstur. Perla segir Ísland fara þangað til að vinna.
„Jú, markmiðin eru skýr þar. Við ætlum ekki að tapa meira.“
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.