Ýmir er 26 ára gamall línu- og varnarmaður. Hans meginhlutverk hjá Löwen hefur verið varnarhlutverkið en hjá Göppingen á Ýmir að spila stóra rullu bæði í vörn og sókn.
Ýmir hefur verið hjá Löwen frá því í febrúar 2020 og spilað með íslenska landsliðinu frá árinu 2017. Hann varð bikarmeistari með Löwen í vor og hefur einnig unnið titla með Val þar sem hann er uppalinn.
Ýmir, sem er á leið á EM í janúar með íslenska landsliðinu, vonast til að með því að færa sig yfir til Göppingen taki hann meiri þátt í sóknarleiknum en hann hefur skorað 61 mark í 123 leikjum í þýsku 1. deildinni.
„Í Ými fáum við leikmann með sterkt hugarfar sem, þrátt fyrir ungan aldur, býr yfir mikilli alþjóðlegri reynslu og þekkir þýsku deildina vel. Hann mun leika mikilvægt hlutverk bæði í vörn og sókn og verður einnig góður náungi fyrir liðið,“ sagð Christian Schöne, yfirmaður íþróttamála hjá Göppingen, á heimasíðu félagsins.
Á síðunni er sömuleiðis haft eftir Ými: „Ég er mjög stoltur af því að hafa skrifað undir samning við Göppingen. Þetta er félag með langa sögu sem það má vera stolt af, sterkt lið í bestu deild heims og stórkostlega stuðningsmenn. Félagið er metnaðarfullt gagnvart framtíðinni og ég hlakka mikið til að klæðast grænu og hvítu treyjunni og spila handbolta í Hölle Süd.“