Ísland vann þá þrjá leiki sem liðið lék í riðli sínum í keppninni en hana skipa þau lið sem lentu í neðsta sæti síns riðils í riðlakeppninni í síðustu viku. Sigrarnir hafa allir verið nokkuð öruggir og þægilegir.
„Já, kannski. Maður fann samt í leiknum við Paragvæ var aðeins meira panik einhvern veginn. Mér fannst við eiga að vera fleiri mörkum yfir og þá kom eitthvað stress í okkur sem gerði það aðeins erfiðara. En manni leið betur á móti Kína.“ segir Elín Rósa en Ísland vann Kína í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins í fyrradag með sjö marka mun.
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, talaði mikið um að förin á HM væri lærdómsferð, enda Ísland að taka þátt á stórmóti í fyrsta sinn í rúman áratug og allir leikmenn nema tveir á slíku móti í fyrsta sinn. Eftir hörkuleiki í riðlinum er ef til vill vert að spyrja hvaða lærdóm leikmenn draga af stórum sigrum gegn lakari liðum líkt og Grænlandi, Paragvæ og Kína.
„Ég held að við höfum aðallega lært að við eigum ekki beint heima í þessari keppni. Okkur langaði miklu frekar að vera í milliriðlinum. Við ætluðum að sýna það í keppninni að við ættum heima í milliriðlinum en ekki þessari keppni.“ segir Elín Rósa. Ákveðinn lærdómur sé þá fólginn í því að mæta í leiki sem sterkari aðilinn fyrir fram.
„Þetta gefur alveg sjálfstraust og að vinna lið stórt er öðruvísi, eins og eftir stórt tap fyrir Frökkum. Það er fínt að skipta aðeins um hlutverk og vera stóra liðið sem er alveg líka krefjandi.“ segir Elín.
Úrslitaleikurinn er fram undan í kvöld. Hvernig leggst hann í Elínu Rósu?
„Bara vel, þetta er bara spennandi að spila gegn öðruvísi liðum. Ekki þessi hefðbundni evrópski bolti. Þetta er skemmtileg áskorun og ég hlakka til.“ segir Elín. Markmiðin séu skýr.
„Já, já. Það er alveg skýrt. Ég held það séu allir sammála því að taka þennan leik.“
Ísland og Kongó mætast klukkan 19:30 í kvöld og verður leiknum lýst beint á Vísi.