Skoðun

Ó­út­skýran­leg mann­vonska

Inga Sæland skrifar

Í gær felldu ríkisstjórnarflokkarnir tillögu Flokks fólksins um 66.381 kr skatta og skerðingalausan jólabónus handa eldra fólki í sárri neyð. Sambærilegan jólabónus og greiddur er til öryrkja þriðju jólin í röð.

Ég á engin orð sem lýsa fyrirlitningu minni gagnvart þessari framkomu stjórnarflokkanna við sárafátækt eldra fólk. Framganga þeirra lýsir engu öðru en stækri mannfyrirlitningu gagnvart sínum minnstu bræðrum og systrum.

Við erum að tala um rúmlega 2000 einstaklinga. Um helmingur þessa fólks fer frá því að vera öryrkjar með aldurstengda örorkuuppbót í það að verða 67 ára og komnir á eftirlaun. Við það missa þau aldurstengdu uppbótina og lækka stórlega í launum. Fara úr því að vera mjög fátækir yfir í það að vera komnir í sárafátækt. Þetta eru að stærstum hluta fullorðnar konur sem eiga engan rétt úr lífeyrissjóði þar sem þær unnu alla sína starfsævi sem heimavinnandi húsmæður.

Framlagið sem við báðum stjórnarflokkana um (140 millj.) til að geta hjálpað þeim fyrir jólin er svipuð upphæð og þau greiða á rúmum 10 tímum af erlendum skuldum ríkisins.

Það var engan bilbug á þeim að finna í atkvæðagreiðslunni þar sem þau kokhraust sögðu NEI!

Höfundur er formaður Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×