Frá þessu greinir Anna, dóttir Elísabetar, í nýrri heildarmynd um fyrsta ár Karls III Bretakonungs á valdastóli, sem sýnd verður á BBC á annan í jólum.
Elísabet lést í Balmoral í Skotlandi 8. september í fyrra. Hún var 96 ára gömul og hafði verið drottning í 70 ár. Balmoral var uppáhalds aðsetur drottningarinnar og dvaldi hún þar öll sumur.
Síðustu daga Elísabetar lýsti hún áhyggjum af því að það myndi flækja skipulagningu „Lundúnarbrúar“, aðgerðaáætluninnar sem fór af stað við andlát hennar, ef hún félli frá í Skotlandi frekar en í Lundúnum.
Í heimildarmyndinni segir Anna fjölskyldu drottningarinnar hins vegar hafa freistað þess að sannfæra hana um að hún ætti ekki að láta það stjórna ákvörðunum sínum. Segist prinessan vona að móðir sín hafi orðið sátt við það að lokum.

Anna segir gæfu hafa ráðið því að hún var hjá móður sinni áður en hún dó og segist hafa upplifað ákveðinn létti þegar krúnudjásnin voru fjarlægð af kistu móður hennar áður en hún var látinn síga niður í hina konunglegu grafhvelfingu að fjölskyldu Elísabetar viðstaddri.
Það augnablik markaði þá stund er Karl tók við.
„Til að vera fullkomlega hreinskilin þá er ég ekki viss um að nokkur geti verið undirbúinn fyrir þessa umbreytingu... að minnsta kosti ekki þannig að þetta sé auðvelt,“ sagði hún um það hvernig umrætt tímabil hefði verið fyrir bróður sinn.
„Svo verður þessi breyting og þú segir: Ok, nú þarf ég bara að halda áfram.“
Anna hrósar Camillu drottningu einnig fyrir stuðning hennar við Karl og skilning hennar á hlutverki sínu. Þá segir hún jafnvel Karl og Camillu ekki hafa gert sér grein fyrir því hversu viðamikil dagskrá drottningarinnar hefði verið en þau hefðu komist að raun um það og lært að njóta þess.