Tveir leikir fóru fram í NBA körfuboltanum í nótt en það voru viðureignir Dallas Mavericks gegn Phoenix Suns og Miami Heat gegn Philadelphia 76ers.
Það kom engum á óvart að Luka Doncic átti enn einn stórleikinn í liði Dallas er liðið hafði betur gegn Phoenix Suns.
Eftir fyrsta leikhluta var staðan 36-24 fyrir Dallas og var Doncic stigahæstur. Í öðrum leikhluta náðu gestirnir í Suns að minnka forskot Dallas um tvö stig og var staðan í hálfleik 64-54.
Í þriðja leikhluta spiluðu gestirnir sinn besta körfubolta og náðu forystunni með góðri spilamennsku frá Greyson Allen og Chimezie Metu. Á þessum tímapunkti var Luka Doncic kominn með þrjátíu stig en hann var hvergi nærri hættur. Í fjórða leikhluta var honum nóg boðið og setti hann niður sitt fimmtugasta stig í leiknum og dró enn og aftur vagninn fyrir Mavericks og vann liðið því að lokum sigur, 128-114.
Luka Doncic var stigahæstur í leiknum með 50 stig en á eftir honum var það Derrick Jones með 23 stig. Hjá Suns var það Greyson Allen með 32 stig en á eftir honum var það Chimezie Metu með 23 stig. Kevin Durant náði sér ekki nægilega vel á strik en hann setti niður 16 stig.
Úrslit næturinnar:
Dallas Mavericks 128-114 Phoenix Suns
Miami Heat 119-113 Philadelphia 76ers
Hér fyrir neðan má sjá það helsta úr báðum leikjunum.