Þetta er í sjöunda sinn sem X-37B er skotið út í geim og frá fyrsta fluginu árið 2010 hefur geimfarið, sem smíðað var af verkfræðingum Boeing, varið rúmum tíu árum á braut um jörðu. Síðasta ferð geimfarsins varði tvö og hálft ár.
Geimfarið er hannað til að þurfa ekki geimfara og hefur sjálfvirkan lendingarbúnað sem lendir geimfarinu eins og geimskutlunum gömlu en X-37B svipar mjög til þeirra.
Upprunalega stóð til að skjóta geimfarinu á loft fyrir rúmum tveimur vikum en geimskotinu var frestað þar til í nótt vegna veðurs og tæknilegra vandamála. Notast var við Falcon Heavy eldflaug SpaceX, sem er í raun þrjár Falcon 9 eldflaugar festar saman. Falcon Heavy getur komið nærri því 64 tonnum á sporbraut.
Liftoff! pic.twitter.com/m8bYx9Enb7
— SpaceX (@SpaceX) December 29, 2023
Stutt er síðan kínverskir geimvísindamenn skutu svipuðu leynilegu geimfari sem kallast „Himneskur dreki“ á braut um jörðu í þriðja sinn frá 2020. Það er einnig sagt hafa borið leynilegar tilraunir á braut um jörðu en áhugamenn segja geimfarið einnig hafa borið sex hluti á sporbraut.
Í fyrstu fimm geimferðunum var X-37B skotið á loft með Atlas V eldflaug United Launch Alliance. Í maí 2020 var svo notast við Falcon 9 eldflaug SpaceX. Það að notast hafi verið við Falcon Heavy að þessu sinni þykir til marks um að geimfarinu hafi verið skotið á hærri sporbraut en áður.
Falcon Heavy hefur burði til að bera farm eins og X-37B í allt að 35 þúsund kílómetra háa sporbraut, samkvæmt frétt Reuters.
Það eina sem varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sagt um þessa nýjust geimferð er að hún feli í sér tilraunir sem snúa að nýrri tækni og tilraunir varðandi eftirlit á sporbraut.