Erlent

Fimm um borð í vél strand­gæslunnar fórust

Bjarki Sigurðsson og Atli Ísleifsson skrifa
Allir farþegar farþegavélarinnar komust úr henni á lífi.
Allir farþegar farþegavélarinnar komust úr henni á lífi. EPA/Jiji Press

Fimm sem voru um borð í vél japönsku strandgæslunnar fórust þegar vélin og flugvél Japan Airlines, sem kom til lendingar, rákust saman á Haneda-flugvelli í japönsku höfuðborginni Tókýó í dag.

Þetta staðfesti samgönguráðherra Japans um hádegisbil í dag. Japanskir fjölmiðlar greina frá því að flugstjóri vélarinnar hafi komist lífs af en að hann sé alvarlega slasaður. Hin fimm sem hafi verið um borð hafi öll látist.

Talið er að flugvél strandgæslunnar hafi verið á leið með mat og önnur hjálpargögn á hamfarasvæðið eftir að mikill jarðskjálfti reið yfir í Japanshafi í gær. Skjálftinn var 7,6 að stærð sem reið þar yfir en yfirvöld hafa greint frá því að í það minnsta þrjátíu hafi látið lífið vegna skjálftans. 

Um borð í farþegavélinni voru 379 farþegar auk áhafnar en allir komust út á lífi. Nánari upplýsingar um líðan farþeganna eru ekki til staðar að svo stöddu. 

Forsætisráðherra Japan hefur sent samúðarkveðjur á aðstandendur þeirra sem létust í slysinu. 


Tengdar fréttir

Flugvél í ljósum logum í Tókýó

Mikill eldur kom upp í flugvél flugfélagsins Japan Airlines eftir lendingu á Haneda-flugvelli í japönsku höfuðborginni Tókýó í dag. Um fjögur hundruð voru um borð í vélinni og tókst að bjarga þeim öllum.

Þrjá­tíu látnir hið minnsta og fjölda enn leitað

Talsmenn yfirvalda í Ishikawa-héraði í Japan hafa staðfest að þrjátíu hið minnsta hafi látið lífið í stóra skjálftanum sem reið í gær og varð til þess að fjöldi bygginga eyðilagðist og flóðbylgja skall á landið. Fjölda fólks er enn leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×