Arouri og fimm aðrir féllu í sprengjuárás á skrifstofur Hamas í Musharafieh í Beirút í gær.
Í yfirlýsingunni segir enn fremur að um sé að ræða stigmögnun í stríði Ísraels og „bandalags andspyrnunnar“ og hefndum heitið. Andspyrnan sé með fingurinn á gikknum, eins og það er orðað.

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði herinn í viðbragðsstöðu eftir drápið á Arouri. Hann virtist ekki vilja svara beint þegar hann var beðinn um að staðfesta að Ísraelsmenn bæru ábyrgð á árásinni en sagði herinn vissulega einbeittan í því að „drepa Hamas“.
Mark Regev, einn ráðgjafa Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, ítrekaði í viðtali við MSNBC að Ísraelsmenn hefðu ekki lýst árásinni á hendur sér. „En hver sem stóð að þessu, þá verður það að vera alveg ljóst; þetta var ekki árás á Líbanon. Hver svo sem gerði þetta var að framkvæma hnitmiðaða árás á forystu Hamas.“

Stjórnvöld í Líbanon sendu frá sér yfirlýsingu seint í gær um að þau myndu senda kvörtun til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna árásarinnar.
Arouri var náin samstarfsmaður Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas á Gasa, og tengiliður samtakanna við Hezbollah og Íran. Þá átti hann stóran þátt í viðræðum milli Hamas og Ísrael um lausn gíslanna sem voru teknir í árásum Hamas 7. október síðastliðinn.
Sérfræðingar gera ráð fyrir að dauði Arouri muni flækja þær viðræður verulega.