Uppreisnarmenn Húta í Jemen, sem njóta stuðnings Íran, hafa lýst yfir stuðningi við Hamas í yfirstandandi átökum á Gasa og gert fleiri en 20 árásir á flutningaskip á Rauða hafi frá því í nóvember síðastliðnum.
Hútar hafa notast við eldflaugar, dróna, þyrlur og hraðskreiða báta í árásum sínum og haldið því ranglega fram að um hafi verið að ræða skip tengd Ísrael.
Bandaríkjamenn og Bretar hafa hingað til skotið niður nokkrar af eldflaugum Húta en ekki gert árásir á skotmörk í Jemen, enn sem komið er. Það gæti hins vegar breyst.
Áðurnefnd yfirlýsing til Húta var undirrituð af Ástralíu, Bahrain, Belgíu, Kanada, Danmörku, Þýskalandi, Ítalíu, Japan, Hollandi og Nýja-Sjálandi, auk Bandaríkjanna og Bretlands.
Árásir Húta eru sagðar ólögmætar og óásættanlegar. Þá er því hótað að ef þær halda áfram muni Hútar þurfa að sæta afleiðingum þess, mögulega hernaðaríhlutun.
Um 20 prósent af skipaumferð um Rauða haf er sagt hafa verið beint annað og áhyggjur eru uppi um að árásirnar muni hafa áhrif á birgðalínur og olíuverð.