Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, segir samþykktina mikið gleðiefni. Rauði krossinn hafi unnið að þessu allt frá því að neyslurýminu Ylju var lokað síðasta vor.
„Við erum ekki búin að fá lóðina eða byggingarleyfið afhent og ég er að bíða eftir upplýsingum um hversu langan tíma það tekur,“ segir Ósk
„Terra eru tilbúin með einingarnar og eru ekkert lengi að setja þetta upp. En við þurfum að fá lóðina afhenta auk þess sem það þarf að tilnefna byggingarstjóra,“ segir Ósk og því liggi ekki alveg fyrir hvenær verði hægt að hefja framkvæmdir.

Spurð hvers vegna þessi staðsetning hafi orðið fyrir valinu segir Ósk að svæðið sé miðsvæðið og nálægt ýmissi þjónustu sem notendur þjónustunnar eru í.
„Það var erfitt að finna rými. Þetta var staðsetning og rými sem hentaði og er nálægt gistiskýlunum, konukoti, Samhjálp og annarri þjónustu sem notendur sækja hjá Reykjavíkurborg en skrifstofur borgarinnar eru beint á móti.“

Ósk segir að hún viti ekki til þess að neinar íbúðir séu nálægt lóðinni. Aðeins sé um að ræða atvinnuhúsnæði.
Rýmið er alls 118,4 fermetrar en inni í því verður móttaka, forstofa, reykherbergi og salerni.
„Svo er neyslurýmið sjálft og viðtalsrými, Svo verða salerni fyrir þau sem koma í neyslurýmið og kaffistofa og sér salerni fyrir starfsfólk,“ segir Ósk og að það sé gengið inn á einum stað og út á öðrum.
Pláss fyrir fimm í einu
Hún segir að pláss sé fyrir fjóra til fimm inni hverju sinni og því sé um að ræða gríðarlega þjónustuaukningu fyrir þennan hóp frá því að neyslurýmið var rekið í bíl. Þar komst aðeins einn inn í einu.

Ósk segir að auk þess sé Rauði krossinn að skoða að opna svokallaða símaráðgjöf fyrir fólk sem notar vímuefni.
„Það er því verið að stórauka þjónustuna. Fyrirmyndin er sími að utan sem heitir „Never use alone“. Þar sem fólk getur hringt og verið með einhvern á línunni á meðan það notar vímuefni. Það getur komið í veg fyrir ofskömmtun og getur aukið öryggi fólks í vímuefnanotkun.
Hún segir að miðað sé við að fólk geti hringt í símann og fengið aðstoð og upplýsingar vegna notkunar ýmissa efna.
Er þetta stór dagur hjá ykkur í þessari vegferð?
„Heldur betur. Það var mikil gleði í húsinu þegar við fengum svarið. Við erum ótrúlega spennt að halda áfram og undirbúa og láta þetta verða að veruleika. Við erum ótrúlega þakklát borginni og byggingarfulltrúa allri aðstoðinni sem þau hafa veitt okkur.“
Hvenær verður þetta tilbúið og opið fyrir notendur?
„Ég ætla að vera mjög bjartsýn og leyfa mér að segja þrír mánuður. En það á eftir að koma þessu upp, kaupa allt inn og á öll leyfi. Það þarf að tengja frárennsli og rafmagn. Þannig tveir til þrír mánuðir er bjartsýn spá.“