„Mér finnst margir vera að tala um að Hondúras hafi átt fyrri hálfleikinn. Við vorum að gera fína hluti í fyrri hálfleiknum og vorum að fá fínar sóknir. Síðasta sendingin til að komast inn á síðasta þriðjunginn var bara að klikka hjá okkur,“ sagði Brynjólfur í viðtali við KSÍ TV.
„Færin sem þeir fengu voru mikið skot fyrir utan teig. Þeir voru að opna okkur aðeins en í seinni hálfleik fannst mér við laga pressuna betur, keyrðum bara á þá og vorum óhræddir. Þar virkaði úrslitasendingin betur og svo kláruðum við færin okkar,“ sagði Brynjólfur.
„Munurinn á hálfleikjunum var það að í seinni hálfleiknum voru aðeins meiri gæði hjá okkur á síðasta þriðjungnum,“ sagði Brynjólfur. Liðið var þarna að spila við þjóðir frá Mið-Ameríku.
„Það er svolítið öðruvísi að mæta þessum liðum. Menn liggja meira í jörðinni og þetta er líkamlega öðruvísi. Það er gaman að spila við öðruvísi kúltúr,“ sagði Brynjólfur.
Hvernig er tilfinning að skora sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið?
„Hún er bara mjög góð. Það er alltaf heiður að spila fyrir Ísland og mjög sterkt að ná inn marki,“ sagði Brynjólfur.