Þetta sagði Einar í samtali við umsjónarmenn Bítisins á Bylgjunni í morgun, en Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðurlandi og Suðvesturlandi vegna vestan hvassviðris og storms.
„Það gengur nú á með dimmum hryðjum núna til hádegis. Það er ansi blint í þessum hryðjum, en það er þó ekki byrjaður skafrenningur af neinu ráði.
Síðan kemur þessi vestanátt og það er að gerast á Suðurnesjum um hádegi, rétt fyrir hádegi. Svo brestur hann á á höfuðborgarsvæðinu sennilega milli 13 og 14, eitthvað svoleiðis. Þetta versta stendur yfir í um þrjár klukkustundir. Við skulum hafa það í huga að fönnin, hún byrjar að rjúka og lyftast í 10 til 12 metrum á sekúndu, sem er vindurinn í hryðjunum núna. Við 15 metra á sekúndu er skyggni orðið mjög slæmt. Og við erum að tala um að það verði 15 til 20 og jafnvel 22,“ segir Einar.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum að neðan.
Einar segir að vanalega hefðum ekkert voðalega miklar áhyggjur af svona veðri, svona skoti, ef þetta væri að hausti eða vori. Nú sé hins vegar laus snjór yfir og skafrenningur.
„Það er hætt við því að þegar svona er á virkum degi, um miðjan dag, að það verði mikil vandræði. Bílar fastir út um allt.“
Einar segir að óveðrið muni ekki standa það lengi, þannig að hægt ætti að vera hægt að sitja þetta af sér.