Heimamenn í Nordsjælland höfðu yfirhöndina framan af leik og náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 12-8. Heimamenn héldu forskotinu fram að hléi og leiddu með tveimur mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 15-13.
Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks og það var ekki fyrr en að um stundarfjórðungar var eftir að Elvari tókst að jafna metin fyrir Ribe-Esbjerg í stöðunni 22-22. Áfram voru það þó heimamenn sem höfðu frumkvæðið og Nordsjælland leiddi með tveimur mörkum þegar um fimm mínútur voru til leiksloka.
Elvari og félögum tókst að jafna metin í tvígang á lokamínútum leiksins, en ekki tókst þeim að stela sigrinum. Að lokum skiptu liðin stigunum á milli sín, lokatölur 28-28.
Elvar var markahæstur í liði Ribe-Esbjerg með fimm mörk úr níu skotum, en hann lagði einnig upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína. Ribe-Esbjerg situr nú í sjötta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 18 leiki, sjö stigum meira en Nordsjælland sem situr í tólfta sæti.