Skoðun

Standið við stóru orðin og lækkið vexti!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar

Opið bréf til peningastefnunefndar og Seðlabankastjóra

Í nær tvö ár hafa gríðarlega miklar byrðar verið lagðar á heimilin í formi hárra vaxta.

Allar þessar fjórtán vaxtahækkanir hafa hækkað afborganir húsnæðislána um hundruð þúsunda króna auk þess að hafa bein áhrif á leiguverð sem einnig hefur hækkað gríðarlega.

Frá því að vaxtahækkunarbrjálæði Seðlabankans hófst hafa vextir verið hækkaðir um 1133%.

Þessar hrikalegu hækkanir hafa verið lagðar á skuldsett heimili landsins í þeim „göfuga“ tilgangi að lækka verðbólgu og nú er svo komið að verðbólgan hefur lækkað úr 10,2% þegar hún var sem hæst og niður í 6,7%.

Verðbólgan hefur lækkað stöðugt í 12 mánuði um 3,5 prósentustig eða 34,3% á einu ári.

Ef verðbólgan hefði hækkað um sama hlutfall á einu ári hefðu vextir klárlega verið hækkaðir.

Spurningin er bara hversu mikið.

En hversu lengi þarf verðbólgan að fara lækkandi til þess að Seðlabankinn lækki vexti sína?

NÚNA er kominn tími til að hefja vaxtalækkunarferlið.

Þegar verðbólgan hækkaði um þriðjung í upphafi árs 2022, þá hækkuðu stýrivextir Seðlabankans um meira en þriðjung, eða 37%.

Það er því eðlileg krafa að það sama gildi þegar verðbólgan hjaðnar. Ef stýrivextir

Seðlabankans fylgdu sömu viðmiðum á niðurleið eins og á uppleið, væru þeir núna tæp 6%.

Það gengur ekki að peningaöflin fái alltaf að haga seglum eftir sínum vindi. Heimilin eiga inni vaxtalækkun sem um munar og fyrri viðmið Seðlabankans til hækkunar gefa ágæta hugmynd um hve mikil sú lækkun ætti að vera.

Eitthvað samræmi hlýtur að þurfa að vera í aðgerðum Seðlabankans. Lækkun verðbólgunnar núna er mun meiri en þær mörgu hækkanir sem notaðar voru sem afsökun fyrir því að hækka vexti og auka byrðar almennings til mikilla muna.

Þá var ekki beðið til að leyfa áhrifum af þegar orðnum vaxtahækkunum að koma fram. Nei, þá var umsvifalaust hækkað, og því ekki nema sanngjarnt að gera ráð fyrir því núna að vextir verði umsvifalaust lækkaðir.

Hagsmunagæsla bankanna

Bankarnir eru þessa dagana að senda Seðlabankanum skýr skilaboð í dulbúningi einhverskonar spádóma.

Alla þessa spádóma bankanna og varnaðarorð, ber að lesa með hagsmuni þeirra í huga og þeir eru ekki litlir.

Það er t.d. ljóst að hagnaður Landsbankans var nær tvöfalt meiri í fyrra en á árinu þar á undan.

Í því ljósi er rétt að minna á að venjulegt heimili sem tók 50 milljón króna lán á 4% vöxtum, greiddi þá 167.000 kr. í vexti á hverjum mánuði.

Í dag greiðir þessi sama fjölskylda 448.000 kr. í vexti á hverjum mánuði.

Mismunurinn er 281.000 kr. í hverjum einasta mánuði, eða 3,4 milljónir á ári.

Allar „ráðleggingar“ bankanna, spár þeirra og skilaboð til Seðlabankans ber að skoða í þessu ljósi.

Bankarnir hafa beinan og gríðarlega mikinn hag af háu vaxtastigi!

Blæðandi heimili

Sennilega vegna þess að ég hef barist fyrir hagsmunum heimila landsins í nokkuð mörg ár, berast mér stundum skilaboð frá örvæntingarfullu fólki sem ræður ekki við húsnæðisskuldir sínar lengur, vegna þessara glórulausu vaxtahækkana sem á þeim hafa dunið.

Þeim hefur fjölgað mikið.

Margir eru komnir á ystu nöf og sjá ekki fram á að ráða við ástandið lengur. Aðrir eru því miður komnir fram af brúninni nú þegar.

Það stingur í hjartað að finna örvæntingu þessa fólks í þessum manngerðu hörmungum sem á þeim dynja.

Þegar fólk á ekki fyrir mat út mánuðinn, eða getur ekki greitt af húsnæði sínu ef það velur að kaupa mat, missir það fljótt vonina.

Og þegar vonin er horfin, fylgir heilsan oft í kjölfarið.

Allt þetta fólk upplifir sig sem leiksoppa einhverra afla sem sjá þau eins og peð í ljótum leikjum sínum og hagnaðarútreikningum.

„Fína fólkið“ sem spilar leikinn og hefur ákveðið að tefla venjulegu fólki fram sem fórnarpeðum, finnur ekki fyrir stýrivaxtahækkunum á eigin skinni á neinn hátt í líkingu við þann harkalega raunveruleika sem aðrir upplifa.

„Fína fólkið“ hefur almennt aldrei upplifað raunverulegan skort, eða það að ráða ekki við afborganir á húsnæði sínu og nístandi áhyggjurnar sem því fylgja.

Vistin í fílabeinsturni allsnægtanna er nefnilega bæði þægileg og góð.

Lækkið vexti strax!

Það er annaðhvort skemmtileg eða sorgleg staðreynd, eftir því hvernig á það er litið, að glórulausar vaxtahækkanir Seðlabankans hafa snúist upp í andhverfu sína því verðbólgan væri komin niður í 5% ef ekki væri fyrir áhrif þeirra á húsnæðislið vísitölunnar.

Auk þess er morgunljóst að skuldir fyrirtækja hafa aukist og afborganir þeirra þyngst vegna þessara háu vaxta og einhvers staðar þurfa fyrirtækin að ná þessum kostnaðarauka til baka.

Þau gera það að sjálfsögðu með því að hækka vöruverð, sem aftur eykur verðbólguna.

Þessi svokallaða hagfræði er einfaldlega ekki að virka.

Heimilin, sem allt þetta bitnar á og eru þolendur þessa ofbeldis Seðlabankans og stjórnvalda, eru komin að þolmörkum, ef ekki yfir þau.

Það er ekki með nokkru móti réttlætanlegt að láta heimilin bera þessar byrðar áfram og algjörlega óásættanlegt ef nota á neyð Grindvíkinga sem afsökun fyrir því að lækka ekki vexti strax.

Það verður erfitt að bæta heimilum og fjölskyldum þann skaða sem þegar er búið valda þeim.

Núna hefur verðbólgan lækkað og heimilin eiga inni lækkun á vöxtum án tafar til að gera ekki illt ennþá verra.

Þau munar um allt. Hvert einasta prósentustig skiptir þau máli og almenningur getur ekki beðið á meðan fólkið í fílabeinsturninum “sér aðeins til hver þróunin verður”.

Lækkið vexti strax!

Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana!

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×