Skoðun

Tón­listar­skólar fyrir alla!

Magnús Lyngdal Magnússon skrifar

Hildur Guðnadóttir (2020 og 2021), Dísella Lárusdóttir (2022) og Laufey Lín Jónsdóttir (2024) eiga það sameiginlegt að hafa unnið nýlega til Grammy-verðlauna (og það eru fleiri dæmi um íslenska verðlaunahafa). Þær eiga það líka sameiginlegt að hafa gengið í tónlistarskóla hér á landi. Ég var svo lánsamur að ganga í tónlistarskóla og börnin mín hafa sem betur fer átt þess kost að læra tónlist. Því miður eru bara alls ekki öll börn jafn heppin. Tónlistarnám á Íslandi er dýrt og tekjuminni foreldrar eiga þess ekki kost að senda börnin sín í tónlistarskóla. Nú er sú staða uppi að í flestum tilvikum eru það aðeins félagslega sterk börn og ungmenni sem geta gengið tónlistarlegan menntaveg, enda þarf að kosta miklu til (þar á meðal skólagjöld og hljóðfærakaup svo dæmi séu tekin) og mér finnst það afleit þróun. Auðvitað verða ekki öll börn sem hefja tónlistarnám á endanum atvinnutónlistarfólk en bara það að fá að alast upp í tónlist kennir svo margt. Það felst til að mynda miklu meira í tónlistarkennslu en að kenna skala og æfingar sem nemandinn á svo að æfa endalaust heima – það er bara tækni. Tökum aftur á móti dæmi um að spila í skólahljómsveit. Hver og einn partur í tilteknu tónverki er hluti af heild og nemendur læra að hlusta eftir því sem aðrir eru að gera. Saman mynda ólík hljóðfæri hljóm sem allir nemendurnir eiga þannig þátt í að skapa. Ef nemendur leggja sig fram í spilamennskunni og hlusta vel myndast samhljómur. Kannski má einmitt segja að það sama gildi um samfélagið; það er samsett út ólíkum pörtum og hefur hver og einn sitt hlutverk. Lykillinn að farsæld er einmitt ekki hvað síst að hlusta á hvað aðrir eru að gera og það er eflaust mikilvægasta lexían sem nám í tónlist felur í sér. Við þurfum því að standa vörð um tónlistarskólana og leita allra leiða til þess að gefa öllum sem vilja leggja stund á tónlistarnám að eiga þess kost, burtséð frá félags- og fjárhagslegri stöðu foreldra.

Höfundur er sagnfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×