Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að meginvextir (stýrivextir) bankans verði óbreyttir í 9,25 prósentum. Þeir sem skulda óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum var væntanlega létt að bankinn skyldi ekki hækka vextina. En ekki er allt sem sýnist. Verðbólga hefur minnkað hratt að undanförnu, nú síðast um heilt prósentustig milli desember og janúar og stendur í 6,7 prósentum.

Allt frá janúar 2018 til febrúar 2020 var verðbólga lítil á íslenskan mælikvarða og dansar í kringum 2,5 prósenta markmið Seðlabankans. Á sama tíma voru vextir nokkuð hærri en sem nam verðbólgunni. Síðan skellur covid-faraldurinn á og Seðlabankinn hóf að lækka vexti og það hratt og næstu þrjú árin var verðbólgan meiri en vaxtaprósentan.
Þetta þýðir að þeir sem voru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum voru með neikvæða vexti. Það er verðmæti húseignar þeirra jókst á sama tíma og höfuðstóll húsnæðislánsins rýrnaði.
Eftir að meginvextir Seðlabankans höfðu verið í 0,75 prósentum í hálft ár, tók bankinn að hækka vexti á ný í maí 2021 og þar með hófst eltingaleikur vaxtanna við vaxandi verðbólgu. Þeim tímamótum var síðan náð í aðgerðum bankans í júlí í fyrra, að vextirnir urðu hærri en prósentutala verðbólgunnar. Þar með urðu raunvextir jákvæðir og í dag eru meginvextirnir 2,55 prósentum hærri en verðbólgan.

Með því að halda meginvöxtunum óbreyttum í dag í stað þess að lækka þá í takti við minni verðbólgu er Seðlabankinn því að taka meðvitaða ákvörðun um að hækka raunvexti.
„Það er að skila sér núna með því að hagkerfið er að hægja á sér. Þannig að þetta er allt í rétta átt. Verðbólga er að minnka, það er að hægja á eftirspurn. Við erum að sjá bættan viðskiptajöfnuð,“ segir Ásgeir.
Það sem réði mestu um hjöðnun verðbólgunnar um eitt prósentustig milli desember og janúar voru janúarútsölunnar og umtalsverð lækkun flugfargjalda. Sem að hluta má rekja til þess að heimilin eru farin að halda aftur af sér í neyslu, ferðast minna.
Seðlabankastjóri bendir á að ferðaþjónustan í víðri merkingu sé orðin aðalútflutningsgrein þjóðarinnar í alþjóðlegri samkeppni.
„Þannig að ef við höldum áfram að vera með miklar hækkanir og verðbólgu, meiri en aðrar þjóðir, erum við náttúrlega að prísa okkur út af markaði. Það er vel mögulegt líka. …. Það er ekki endilega sjálfgefið að fólk vilji koma til Íslands alltaf. Við erum í samkeppni við aðra áfangastaði,“ segir Ásgeir Jónsson.
Vonast eftir breytingum eftir kjaraviðræður
Finnbjörn Hermannsson forseti ASÍ ræddi við fréttamann í kvöldfréttum. Hann sagði það hafa verið vitað mál að vextir myndu ekki breytast í dag.
„Ég geri ráð fyrir að Seðlabankinn vilji sjá hvað gerist í kjarasamningunum. Það er tiltölulega stutt í næstu vaxtabreytingu í mars. Og þá erum við að vonast eftir breytingum, að það lækki vextir,“ sagði Finnbjörn.
Næsti vaxtaákvörðunardagur er tuttugasti mars. Finnbjörn kveðst vona að þá liggi fyrir niðurstaða í kjaraviðræðum. „Alla vega heildarkjarasamningana þó það verði einhverjir eftir. Þá ætti Seðlabankinn að geta tekið afstöðu til vaxtalækkunar út frá raunveruleika sem þá verður á staðnum.“
Finnbjörn segir ákvörðun ýmissa aðila í atvinnulífinu um að frysta eða lækka verð sín góða teikn um að aðilar ætli að taka undir með Alþýðusambandinu. „Þegar við erum búin að skrifa undir þurfa fyrirtækin að taka við og vera með eins mikið aðhald í hækkunum eins og hægt er og vonandi lækkanir eins og IKEA gerði.“