Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um loðnuleitina sem hófst í síðustu viku en hún er sú önnur frá áramótum. Þrjú fiskiskip eru í leitinni að þessu sinni en kort Hafrannsóknastofnunar sýnir leitarferla skipanna.
Eitt þeirra, Ásgrímur Halldórsson, leitaði undan Norðausturlandi og er núna komið inn til Hornafjarðar. Tvö skipanna, Heimaey og Polar Ammassak, leituðu undan Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum en þurftu frá að hverfa vegna óveðurs og bíða núna átekta inni á Ísafirði.

Á leitarferlunum sést að Polar Ammassak virðist hafa verið að kanna eitthvað sérstaklega undan hafísröndinni djúpt norður af Horni. En var áhöfnin að sjá eitthvað spennandi þar?
„Það er rétt að Polar Ammassak var að kanna vestur með landgrunnsbrúninni og eins langt út og hafís leyfði norður af Horni. Þar var blönduð loðna, það er bæði ungloðna og kynþroska loðna,“ svaraði Birkir Bárðarson fiskifræðingur, sem er leiðangursstjóri.

Þótt leitinni sé ekki lokið gaf Hafrannsóknastofnun það út í dag að mjög lítið hefði mælst af loðnu. Stofnunin tók jafnframt fram að fyrirhugað væri að leita betur undan Vestfjörðum þegar veður lægir en einnig á Suðausturmiðum.
Fréttastofan heyrði hljóðið í forystumönnum þriggja sjávarútvegsfyrirtækja núna síðdegis, þeim Gunnþóri Ingvasyni frá Síldarvinnslunni, Binna í Vinnslustöðinni og Stefáni Friðrikssyni frá Ísfélaginu. Þeir sögðust allir enn hafa trú á því að loðnan fyndist. Þeir bentu á að hún væri duttlungafull og það hefði stundum gerst að hún hefði ekki fundist fyrr en eftir miðjan febrúar.
Framundan er langverðmætasti tíminn, þegar loðnan nálgast hrygningu, venjulega frá miðjum febrúar og fram í miðjan marsmánuð. Þannig að ef hún finnst á næstu dögum, og hægt verður að gefa út kvóta, þá eru íslensku útgerðirnar með það öflugan flota veiðiskipa að þau gætu hæglega náð að landa þetta tuttugu til þrjátíu milljarða króna verðmætum í þessum örstutta glugga.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: