Skoðun

Á­fram Bashar - á­fram Ís­land!

Þóra Bergný Guðmundsdóttir skrifar

Nú þegar við fylgjumst agndofa með grimmdarlegu þjóðarmorði í Palestínu fyllumst við djúpum sársauka og vonleysi. Íslenska þjóðin stendur með Palestínumönnum þó einstaka rödd heyrist sem segi að við skulum ekki skipta okkur af því sem við getum ekki breytt og kemur okkur ekki við. Flestum líður hins vegar ömurlega yfir að sjá sundursprengd heimili, spítala, skóla, svo ekki sé minnst á helsár börn. Margt fer því í gegnum huga fólks og leiðir til að sýna kraftmikinn stuðning eru hugleiddar.

Í vonleysi okkar sjáum við smugu sem beinist að mestu glamour senu okkar heimshluta Evróvisjóninni sjálfri. Viðburður sem friðsælar íslenskar fjölskyldur hafa hingað til haft gaman af og ekki þurft að velta öðru en skemmtanagildinu fyrir sér.

Því rísa mörg þessari skemmtun til varnar og segja að þetta sé nú bara tónlist, ekki pólitík. Samt voru öll svo innilega sammála um, að eftir innrásina í Úkraínu væru Rússar ekki húsum hæfir í þessar tónlistar- og friðarveislu Evrópu.

Eftir, að því er virðist tapaða, baráttu fyrir sniðgöngu Íslands í keppninni, því okkur sé ekki stætt á því að deila sviði með glæpahyski, hefur umræðan við ljórann út í heiminn, snúist um það hvort listamaður frá Palestínu, gæti orðið verðugur fulltrúi Íslands í partýinu.

Þetta er óneitanlega sérstök staða en aðra hvora leiðina verður að velja. Ég tel að það væri sterkur leikur að okkar framlag til hlaðborðsins í Svíþjóð að þar mætti einmitt fulltrúi hinna aðþrengdu og hrjáðu, listamaðurinn góði og Palestínumaðurinn Bashar Murad með flott lag og glæsilegan flutning, og fengi þannig að minna á tilvist og óbærilega þjáningu þjóðar sinnar.

Við mín kristnu systkini sem halda því á lofti að við getum ekki sent einhvern ,,araba” í okkar nafni, vil ég segja, að Jesús, besti vinur barnanna kom frá Palestínu en þar eru börn, ofan á aðrar hörmungar, að deyja úr hungri þessi dægrin.

Sýnum nú hug, djörfung og dug og sýnum heiminum að við berjumst gegn þjóðarmorði!

Höfundur er arkitekt og hótelhaldari.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×