Nafnskírteinin hafa litið eins út í áratugi eða eins lengi og elstu menn og konur muna og þykja ekki merkileg skilríki í dag. Júlía Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri þjónustu og skráningar hjá Þjóðskrá segir að nú hafi átt sér stað algjör bylting í útgáfu nafnskírteina.

„Jú, svo sannarlega. Þau eru orðin mun handhægari og öruggari að sjáfsögðu. Þau er hægt að fá í tveimur útgáfum,” segir Júlía. Annars vegar nafnskírteini sem jafnframt væri gilt ferðaskilríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og uppfyllti allar öryggiskröfur líkt og vegabréf með lokuðum örgjörfa. Hins vegar væri nafnskírteini sem allir, þar með börn, geti fengið og gildi til auðkenningar. Enda orðin ríkari krafa að börn og ungmenni geti auðkennt sig.

„Þau fara í strætó, kaupa kort í heilsuræktarstöðvar. Frá sextán ára aldri geta þau leyst út lyfin sín. Þannig að þetta er orðið gilt persónuskilríki til auðkenningar,“ segir Júlía. Það væri nýlunda að börn geti fengið útgefin skilríki.
En skírteinin geta gagnast fleirum. Þau eru samkvæmt nýjum alþjóðlegum staðli sem samþykktur var á fundi á Íslandi og þau fyrstu í heiminum með þessu útliti.
„Margt eldra fólk er löngu hætt að ferðast og með útrunnið vegabréf. Eru ekki búin að vera með ökuskírteini lengi. Mörg ungmenni í dag velja að vera ekki með ökuskírteini. Fyrir utan auðvitað að þau eru ekki endilega alveg gild persónuskilríki. Það er líka frekar óþjálft að vera alltaf með vegabréfið á sér,“ segir Júlí.

Og nýju nafnskírteinin hafa strax slegið í gegn á fyrsta degi.
„Síminn hefur ekki stoppað í dag. Við erum búin að vera í góðum samskiptum við sýslumenn sem taka að sjálfsögðu á móti umsóknunum og eru okkar helsti samstarfsaðili. Þar hefur allt gengið vel. Fullt af fólki búið að koma og mjög mikill áhugi virðist vera.“
Nóg til af skilríkjum?
„Já, það er nóg til. Við erum vel undirbúin,“ segir Júlía Þorvaldsdóttir.
Einnig verður hægt að sækja um nafnskírteinin í sendiráðum Íslands í öðrum löndum frá og með 1. apríl.