Þetta kemur fram á vef Árborgar en Vegagerðin hafði leitast eftir samstarfi við bæjaryfirvöld varðandi úrbætur á umferðaröryggi á Austurvegi frá Tryggvatorgi að Sigtúni.
Mikill umferðarþungi er á svæðinu og stendur til að setja upp girðingu í miðeyjuna til að beina gangandi fólki að gangbrautinni og þannig tryggja öryggi þess. „Aðgerðin felur í sér að núverandi trjágróður er fjarlægður og sett verða ný tré í staðinn. Þá verða settir blómakassar á girðinguna með svipuðum hætti og er við Tryggvatorg í dag.“

Umhverfisnefnd Árborgar tók málið fyrir á fundi sínum fyrr í vikunni en í umferðaröryggisrýni kom fram að núverandi gróður skerði sjónlínur ökumanna og stafi því hætta af því gagnvart annarri umferð og gangandi vegfarendum.
Athygli vakti á haustdögum 2021 þegar níu aspir voru felldar að ósk Vegagerðarinnar til að bæta umferðaröryggi á veginum.
Í bókun umhverfisnefndar kemur fram að Vegagerðin muni sjá um framkvæmdir á eyjunni og uppsetningu grindverks en sveitarfélagið Árborg um að fjarlægja gróður og uppsetningu nýrra trjáa og blómakerja.
