Leikmenn Leverkusen skoruðu tvö mörk í uppbótartíma leiksins og varamaðurinn Patrik Schick skoraði þau bæði. Ævintýrið heldur því áfram þótt að menn séu farnir að tefla ansi tæpt.
Leverkusen verður því í pottinum þegar dregið verður á morgun en liðin gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum eftir að Qarabag menn komust líka í 2-0.
Liðin sem komust áfram í átta liða úrslitin í kvöld voru auk Liverpool og Leverkusen lið Roma, Atalanta, Marseille, AC Milan, Benfica og West Ham.
Það stefndi þó allt í það að Leverkusen menn væru að detta út á heimavelli og tapa sínum fyrsta leik á leiktíðinni.
Abdellah Zoubir kom Qarabag í 1-0 á 58. mínútu og Juninho skoraði annað markið á 67. mínútu. Leikmenn Qarabag misstu Elvin Cafarquliyev af velli með rautt spjald á milli markanna.
Jeremie Frimpong minnkaði muninn í 2-1 á 72. mínútu en þannig var staðan þar til í uppbótartíma.
Schick jafnaði metin á þriðju mínútu uppbótartímans og skoraði síðan sigurmarkið fjórum mínútum síðar.
Brighton vann 1-0 sigur á Roma á sama tíma en það dugði skammt eftir 4-0 tap í fyrri leiknum á Ítalíu. Danny Welbeck skoraði sigurmark enska liðsins. Roma er komið áfram 4-1 samanlagt.