Í yfirlýsingu Stjörnunnar segir: „Stjarnan og Sirius hafa komist að samkomulagi um að Óli Valur muni koma á láni til félagsins út keppnistímabilið 2024.“
Hinn 21 árs gamli Óli Valur er gríðarlega sóknarsinnaður bakvörður sem lék frábærlega með Stjörnunni sumarið 2022. Var hann keyptur til Sirius sama ár en þar hafa hlutirnir ekki gengið nægilega vel enda Óli Valur verið mikið meiddur síðan hann færði sig til Svíþjóðar.
„Óli Valur er einn af fjölmörgum leikmönnum sem félagið hefur selt á undanförnum árum. Sökum meiðsla þá hefur Óli verið inn og út úr liðinu hjá Sirius og hafa félögin því komist að samkomulagi um að Óli snúi aftur í búninginn bláa og spili með sínu uppeldisfélagi á komandi keppnistímabili. Við viljum þakka Sirius fyrir sérstaklega fagleg samskipti og gott samstarf hingað til”, segir Helgi Hrannarr Jónsson formaður meistaraflokks karla hjá Stjörnunni.
Ásamt því að fá Óla Val þá sótti Stjarnan einnig Guðmund Baldvin Nökkvason á láni frá sænska félaginu Mjällby. Guðmundur Baldvin er einnig uppalinn hjá Stjörnunni en var keyptur til Svíþjóðar síðasta sumar.
Stjarnan hefur leik í Bestu deild karla þann 6. apríl næstkomandi þegar liðið sækir Íslands- og bikarmeistara Víkings heim í Víkina. Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.