Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landsbankans. Þar segir að Bankasýslan hafi með bréfi í dag óskað eftir upplýsingum varðandi tilboð Landsbankans í TM tryggingar hf. Bankaráð muni svara bréfinu innan tilskilins frests.
Tilkynnt var um kaup Landsbankans á tryggingafélaginu TM á sunnudaginn. Bankasýslan segist hafa komið af fjöllum við tilkynningu um kaupin og þá hefur fjármálaráðherra sagst ekki munu samþykkja kaupin nema þá sem hluta af sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum. Ríkið er langstærsti hluthafinn í bankanum.
Bankasýslan lýsti yfir vonbrigðum með ákvarðanatöku og upplýsingagjöf bankaráðs Landsbankans og krafðist þess að aðalfundinum yrði frestað. Sem nú er orðin raunin. Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri segir það vera hennar hlutverk að reka bankann og auka verðmæti hans. Þá hefur hún bent á að bankinn sé ekki ríkisfyrirtæki heldur almenningshlutafélag nær eingöngu í eigu ríkisins.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagst ekki munu taka þátt í því að selja hlut ríkisins í Landsbankanum fyrr en sölunni á Íslandsbanka verður lokið. Ákveðið var á ríkisstjórnarfundi í morgun að hefja söluferli á þeim hluta ríkisins í Íslandsbanka sem eftir stendur.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, setur stórt spurningamerki við að Bankasýslan hafi ekki verið upplýst um gang mála. Ljóst sé að fjármálaráðherra hafi vitað af viðræðum um kaup fyrir hálfum öðrum mánuði en ekki krafist þess að Bankasýsla kannaði málið. Ráðherra hafi eftirlitsskyldu með Bankasýslunni.