Um fimmleytið í dag barst tilkynning frá almannavörnum þess efnis að mjög há gildi SO2 hefðu mælst í Garðinum. Mæling klukkan 16:30 hafi sýnt rúmlega 16.000 µg/m3, en allt yfir 14.000 µg/m3 telst til hættuástands. Tilkynning barst svo skömmu seinna um að mælirinn væri bilaður og ekkert að marka þessar tölur.
Magnús Stefánsson bæjarstjóri Suðurnesjabæjar segir að íbúar hafi ekkert botnað í fyrstu fréttum um gasmengunina. Enginn hafi orðið var við furðulega lykt eða neitt slíkt í loftinu. Það hlaut að vera eitthvað skrítið, enda kom svo í ljós að mælirinn laug.