Birkir kom inn á sem varamaður í stöðunni 1-1, þegar hálftími var eftir, og skömmu síðar kom sigurmark Brescia en það var Nicolas Galazzi sem skoraði bæði mörk liðsins.
Efstu tvö lið deildarinnar komast beint upp í A-deild en liðin í 3.-8. sæti fara í sex liða umspil um síðasta lausa sætið. Brescia er nú komið upp fyrir Sampdoria, í 7. sæti með 42 stig eftir 31 leik, en er sjö stigum á eftir næstu liðum og skammt á undan hópi liða sem einnig stefna á umspilið.
Misstu frá sér næstefsta sætið
Í Feneyjum urðu heimamenn í Venezia að sætta sig við 3-2 tap gegn Reggiana, eftir að hafa komist í 2-1, og þar með drógust þeir niður fyrir Como, í 3. sæti. Bjarki Steinn Bjarkason var í liði Venezia fram á 83. mínútu en landsliðsmaðurinn Mikael Egill Ellertsson sat á varamannabekk liðsins allan tímann.
Hjörtur Hermannsson kom sömuleiðis ekkert við sögu, og var raunar ekki einu sinni í leikmannahópi Pisa, þegar liðið vann dramatískan 4-3 sigur á Palermo eftir að hafa lent 3-2 undir þegar korter var eftir. Pisa er því með í baráttunni um sæti í umspilinu, með 40 stig eða aðeins tveimur stigum á eftir Birki og félögum í Brescia.
Ari og Davíð í vörn Kolding
Í Danmörku voru Ari Leifsson og Davíð Ingvarsson í liði Kolding sem gerði sitt þriðja jafntefli í röð, 1-1 gegn Hobro á útivelli. Liðin eru því jöfn að stigum með 34 stig í 5.-6. sæti næstefstu deildar Danmerkur, og eiga ekki möguleika á að komast upp í úrvalsdeildina.