„Ég hef alltaf verið í íþróttum en var frekar svona þybbið barn. Ég byrja í tennis þegar ég er tíu ára og fann mig þar. Ég var í því þangað til ég var um tvítugt og hætti þá bara alveg í íþróttum og í raun þá blés ég bara út eftir það,“ segir Árni og heldur áfram.
„Ég vissi ekkert hvað ég vildi verða og lifði bara frekar óheilbrigðum lífsstíl á þessum tíma og var orðinn 130 kíló. Þarna leið mér mjög illa. Ég fer til heimilislæknis og hún vildi fara setja mig á blóðþrýstingslyf. Hún sagði við mig þá að annað hvort þyrfti ég að fara á þessi lyf og vera á þeim það sem eftir er, eða ég þyrfti að taka mig á. Foreldrar mínir skilja þegar ég er í kringum 8, 9 eða 10 ára aldurinn og það sat í mér og ég hef alltaf leitað í mat sem mín svona dópamínfíkn og þarf alveg enn þann dag í dag að passa mig mjög mikið.“

Hann segir sjálfur að hann hafi ekki litið vel út á þessum tíma.
„Ég var hættur að horfa í spegil. Þegar ég fór í sturtu, gerði ég allt til að sjá ekki í spegilinn og þurrkaði mér bara og fór í föt,“ segir Árni sem var á þessum tíma í sambandi með konu sem sleit því sambandi.
„Það var rosalega erfitt en eftir á skil ég hana vel. Ég var ekkert að hugsa um sjálfan mig og það er erfitt að vera í sambandi með þannig manneskju.“
Í kjölfarið fór Árni í Crossfit og grenntist mikið. Hann segir að þá hafi honum farið að líða betur. En saga Árna er ekki búin þarna, og hægt er að sjá viðtal Sindra Sindrasonar í Íslandi í dag við þennan sterka mann í heild sinni á Stöð 2+ eða í frelsiskerfi Stöðvar 2. Brot úr viðtalinu má sjá hér að neðan.