Skallagrímur datt út í átta liða úrslitum úrslitakeppni 1. deildar karla á móti Þórsurum á dögunum en einvígið fór alla leið í oddaleik. Skallagrímur vann ellefu leiki og tapaði ellefu leikjum í deildarkeppninni í vetur. Liðið var síðan tuttugu stigum yfir í oddaleiknum á móti Þór fyrir norðan en tapaði leiknum á endanum í framlengingu.
Hafþór Ingi gaf þetta út á lokahófi Körfuknattleiksdeildar Skallagríms og var honum þar klappað vel í lófa og þakkað fyrir hans framlag og vinnu, bæði sem aðstoðarþjálfari meistaraflokksins og sem þjálfari Ungmennaflokks karla.
Í dag tilkynnti Körfuknattleiksdeild Skallagríms svo að hún og Atli Aðalsteinsson hafa komist að samkomulagi um að endurnýja ekki samninginn þeirra á milli en samningurinn við Atla rann út eftir tímabilið. Stjórnin notaði tækifærið í frétt á miðlum Skallagríms, þakkaði Atla fyrir ómetanlegar stundir á undanförnum árum og óskaði honum velfarnaðar í framtíðinni.
Atli hefur þjálfað meistaraflokksliðið síðan 2019 eða í fjögur tímabil. Hann fór meðal annars með liðið í oddaleik gegn Hamri um að fara upp í Subway deildinni á síðasta tímabili.
Atli var einnig aðstoðarþjálfari kvennaliðs Skallagríms þegar þær lönduðu bikarmeistaratitlinum undir stjórn Guðrúnar Óskar Ámundadóttur.