Atkvæðagreiðslan fer fram í samræmi við tillögu samstarfsnefndar sem sveitarfélögin skipuðu um sameiningaráformin í janúar. Hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri framfaraskref að sameina sveitarfélögin í eitt.
„Þannig verður til öflugt sveitarfélag með aukinn slagkraft, sterkari rekstrargrundvöll og tækifæri til þess að bæta þjónustu við íbúa,“ að því er kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar Húnabyggðar frá því í dag.
Jafnframt var samþykkt að atkvæðagreiðslan færi fram dagana 8. til 22. júní og að kosningaaldur miðist við sextán ár.
Þetta er að vissu leyti í annað skiptið á nokkrum árum sem atkvæði eru greidd um sameiningu sveitarfélaganna. Íbúar Skagabyggðar felldu tillögu um sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu sumarið 2021. Af þeim sjötíu sem voru þá á kjörskrá greiddu 29 atkvæði gegn sameiningu en 24 með.
Í kjölfar þeirrar atkvæðagreiðslu sameinuðust Blönduós og Húnavatnshreppur í nýtt sveitarfélag, Húnabyggð.