Skoðun

Hver á að setja málið á dag­skrá?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fróðleg grein birtist á Vísir.is fyrir helgi eftir Jón Steindór Valdimarsson, formann Evrópuhreyfingarinnar og fyrrverandi þingmann Viðreisnar, í tilefni af degi Evrópusambandsins 9. maí. Á þeim degi árið 1950 var svonefnd Schuman-yfirlýsing flutt af þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, Robert Schuman, sem markaði upphaf þess sem við þekkjum sem Evrópusambandið í dag. Þar kom meðal annars fram að fyrst skrefið í þeim efnum væri að koma kola- og stálframleiðslu undir eina stjórn en lokaskrefið væri evrópskt sambandsríki.

Talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið minnast árlega dags sambandsins og þá um leið gjarnan Schuman-yfirlýsingarinnar en hafa hins vegar aldrei orð á lokamarkmiði samrunans innan þess. Á sama tíma eru skoðanasystkin þeirra á meginlandinu mun ófeimnari í þeim efnum. Til að mynda er þannig lögð áherzla á áframhaldandi þróun Evrópusambandsins í átt að sambandsríki í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar Þýzkalands en hana mynda meðal annars þýzkir systurflokkar Viðreisnar og Samfylkingarinnar.

Formaðurinn segir meðal annars í greininni að setja eigi inngöngu í Evrópusambandið „á dagskrá af fullri alvöru í umræðu almennings og ekki síður á vettvangi stjórnmálanna.“ Óneitanlega athyglisverð orð. Á sama tíma gerir hann að því skóna í greininni að meirihluti landsmanna vilji ganga í sambandið. Hvers vegna er málið þá ekki á dagskrá „af fullri alvöru“ í umræðu almennings svo notuð séu hans eigin orð? Hvað kemur í veg fyrir það? Mögulega er ástæða sú að í raun er í bezta falli fyrir að fara afar takmörkuðum áhuga á málinu.

Hvað stjórnmálin varðar er það vitanlega á ábyrgð Viðreisnar að setja inngöngu í Evrópusambandið á dagskrá á þeim vettvangi sem eina stjórnmálaflokksins sem leggur áherzlu á málið. Það er til dæmis ekki hlutverk stjórnarflokkanna sem allir eru andvígir inngöngu í sambandið og voru ekki sízt kosnir út á þá stefnu. Samfylkingin hefur að vísu ekki breytt um stefnu en lagt málið til hliðar. Meðal annars í kjölfar þess stórjókst fylgi flokksins sem og andstaða við inngöngu í Evrópusambandið á meðal stuðningsmanna hans.

Fylgi Viðreisnar, flokks Jóns Steindórs, mældist hins vegar á sama tíma einungis 7,5% í síðustu skoðanakönnun Gallups og á því róli hefur það verið undanfarin ár. Mun minna en í síðustu kosningum, í stjórnarandstöðu og við kjöraðstæður fyrir áróður flokksins fyrir inngöngu í Evrópusambandið, þó hann haldi að vísu engu vatni, auk þess sem hann situr einn að áherzlu á málið, stefnumál sem Jón Steindór virðist telja ávísun á mikinn fjölda atkvæða á meðal almennings. Hvað er þá eiginlega að Viðreisn? Væntanlega eitthvað verulega mikið.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×