Á vef Veðurstofunnar segir að líkur séu á þokusúld við norðausturströndina og að hiti verði víðast á bilinu þrjú til ellefu stig að deginum.
„Á morgun mjakast lægðin til austurs skammt fyrir norðan land. Áttin verður því suðvestlæg, yfirleitt 5-10 m/s og skúrir eða slydduél, en þurrt á Suðaustur- og Austurlandi fram eftir degi. Hiti 2 til 10 stig, mildast austantil. Snýst í norðlæga átt annað kvöld með kólnandi veðri og þá léttir til sunnanlands.
Á laugardag er svo útlit fyrir fremur rólega norðlæga átt með svölu veðri um landið norðanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Suðvestan 3-10 m/s og skúrir eða slydduél, en þurrt á Suðaustur- og Austurlandi fram eftir degi. Hiti 2 til 10 stig, mildast austantil. Norðlægari um kvöldið og kólnar.
Á laugardag: Norðlæg eða breytileg átt, víða 5-10 m/s. Dálítil él um landið norðanvert og hiti 0 til 5 stig. Bjart með köflum sunnan heiða og hiti að 10 stigum yfir daginn, en stöku skúrir á Suðausturlandi síðdegis.
Á sunnudag (hvítasunnudagur): Gengur í austan- og suðaustan 10-18 með rigningu, einkum sunnan- og vestanlands. Hlýnar í veðri.
Á mánudag (annar í hvítasunnu): Suðaustlæg átt og rigning, einkum suðaustantil. Hiti 4 til 11 stig. Dregur úr vætu síðdegis.
Á þriðjudag og miðvikudag: Suðlæg eða breytileg átt og víða skúrir. Hiti breytist lítið.