Í frétt LA Times segir að magnið hafi verið sambærilegt því sem notað er við almennar svæfingar og er til rannsóknar hvaðan hann fékk efnin og hvernig hann innbyrti svo mikið af þeim.
Perry, sem var hvað þekktastur fyrir hlutverk Chandlers Bing í gamanþáttunum Friends var nýbyrjaður í ketamínmeðferð en hann hafði lengi átt í vandræðum með notkun fíkniefna. Rannsókn leiddi í ljós að hann hafði innbyrt mikið magn Ketamíns en engin önnur lyf fundust í Perry.
Réttarmeinarfræðingur komst að þeirri niðurstöðu að ketamínið hefði valdið Perry öndunarerfiðleikum og það hafi dregið hann til dauða. Hann fannst fljótandi á maganum í sundlauginni.
Sjá einnig: Dánarorsök Matthew Perry ljós
Ketamín getur haft áhrif á öndun fólks og aukið álag á hjarta þeirra sem taka lyfið. Ketamín er einnig innbyrt af fólki sem vill komast í vímu og er sagt leiða til þess að fólks upplifi sig stíga út úr líkama sínum.
Perry hafði glímt við heilsukvilla eins og sykursýki og veikindi sem komu niður á öndun hans. Þá reykti hann um tíma tvo pakka á dag.