Lögin um erlenda útsendara skilgreina frjálsa fjölmiðla og félagasamtök sem hagsmunaverði eldra afla ef þau fá meira en fimmtung tekna sinna erlendis frá. Sambærileg lög í Rússlandi hafa verið notuð til þess að bæla niður andóf og þagga niður í fjölmiðlum sem eru gagnrýnir á stjórn Vladímírs Pútín forseta.
Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, neitaði að staðfesta lögin á þeim forsendum að þau þrengdu að fjölmiðlafrelsi og gerðu út um möguleika Georgíu á að fá aðild að Evrópusambandinu. Georgía hefur stöðu umsóknarríkis þar.
Þingið ógilti neitunarvald Zourabichvili í dag með 84 atkvæðum gegn fjórum. Á ýmsu gekk á þingfundi en einn þingmaður stjórnarflokksins Georgíska draumsins hellti meðal annars vatni yfir leiðtoga stjórnarandstöðuflokks á meðan sá síðarnefndi var í ræðupúlti.
Zourabichvili hefur nú fimm daga til þess að skrifa undir lögin. Að öðrum kosti afgreiðir þingforsetinn þau sem lög.
Evrópusambandið hefur sagt að lögin hafi neikvæð áhrif á umsókn Georgíu um aðild. Bandaríkjastjórn tilkynnti um refsiaðgerðir gegn georgískum embættismönnum sem tækju þátt í að grafa undan lýðræði í landinu og hvatti stjórnvöld til þess að endurskoða lögin.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hitti fulltrúa georgískra stjórnvalda og fleiri, þegar sendinefnd norrænna og Eystrasaltsríkja heimsótti landið fyrr í þessum mánuði. Hún og samráðherrar hennar gerðu athugasemdir við rangfærslur forseta georgíska þingsins eftir fund þeirra um að þau hefðu verið sammála um að rétt hefði verið hjá georgískum stjórnvöldum að taka ekki þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi.