Íþróttalið Grindavík þurftu að flýja bæinn eins og aðrir vegna jarðhræringanna í nóvember. Það var meðal annars risastór sprunga undir íþróttahúsinu þeirra.
Liðið hefur því verið heimilislaust síðan. Breiðablik bauð fram aðstoð sína í vetur og leyfði Grindavík að æfa og spila leiki sína í körfunni í Smáranum. Bæði karla- og kvennalið Grindavíkur hafa spilað þar alla sína heimaleiki síðan þá.
Grindavíkurliðið hefur blómstrað í Smáranum og karlaliðið unnið meðal annars alla sex heimaleiki sína í húsinu í úrslitakeppninni. Það var því full ástæða til þess að sækjast eftir því að vera þar áfram því ekki lítur úr fyrir að Grindvíkingar fái að fara heim í bráð.
Ingibergur Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, staðfesti það siðan í Morgunútvarpi Rásar 2 að samkomulag hafi náðst við Blika um að Grindavík fái að spila áfram í Smáranum.
„Við erum búin að finna heimili. Ég ætlaði nú að heyra í framkvæmdastjóranum áður en ég kom hingað því hann átti að undirrita pappíra í gær varðandi framtíðarheimili okkar þangað til að við förum heim. Sem á að vera í Smáranum,“ sagði Ingibergur.
„Bakhjarlarnir okkar hafa allir risið upp og skrifað undir fullt af tveggja ára samningum. Framtíðin er björt hvað það varðar,“ sagði Ingibergur.
Grindavík mætir Val í kvöld á Hlíðarenda en bæði liðin geta með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Subway deild karla í körfubolta. Valur vann hann síðast vorið 2022 en Grindavík hefur ekki unnið hann síðan 2013.
Leikur Vals og Grindavíkur hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Bein útsending hefst klukkustund fyrir leik, klukkan 18:15.