Heiðdís Anna er nýtekin við starfi ljósmóður í Sveitarfélaginu Hornafirði en þar hefur ekki verið starfandi ljósmóðir í tólf ár. Í lokaverkefni sínu skrifaði hún um viðhorf og væntingar kvenna í sveitarfélaginu til þjónustu í barneignarferlinu. Á hverju ári fæðast um tuttugu til þrjátíu börn í sveitarfélaginu en íbúar eru um þrjú þúsund.
Þjónustunni í sveitarfélaginu hefur hingað til verið sinnt af ljósmæðrum frá Klaustri og Selfossi sem skiptust á að sinna konunum á tveggja vikna fresti.
Heiðdís tók viðtöl við rýnihóp kvenna og segir að skýr krafa hafi komið frá þeim öllum í viðtölunum að fá ljósmóður í sveitarfélagið í fasta vinnu . Það myndi veita þeim meira öryggi auk þess sem það gæfi þeim færi á að tengjast þeim betur.
Heiðdís bendir á að þótt svo að hjúkrunarfræðingur og læknir séu með fasta viðveru á staðnum þá séu ljósmæður sérfræðingar í barneignarferlinu.
Þær segja það oft vera erfitt fyrir konur að þurfa að fara frá heimili sínu nær fæðingarstað um tveimur til þremur vikum fyrir settan dag. Það geti verið afar krefjandi fyrir til dæmis fólk sem er með fjölskyldur.
Heiðdís segir konurnar sem hún ræddi við hafa nefnt þetta og margar sagt þetta flakk hafa verið afar erfitt. Þær hafi upplifað skort á skilningi í fæðingarþjónustunni utan heimabyggðar um hversu erfitt það sé að vera fjarri heimilinu að bíða eftir barninu í svo langan tíma. Auk þess geti það þýtt að pör verði af verulegum fjármunum vegna fjarveru frá vinnu.
Erfið staða fyrir ljósmæður í stórum sveitarfélögum
Unnur Berglind segir erfiða stöðu í greininni. Ljósmæðrum hafi farið fækkaði því svo stórir hópar hafi farið á eftirlaun. Á sama tíma hafi ekki jafn margar ljósmæður útskrifast. Takmarkandi þátturinn sé verknámið því það sé bara ákveðinn fjöldi fæðinga.
Hvað varðar lengd og fyrirkomulag námsins segir Unnur Berglind að það geti verið hagræðing í því að breyta fyrirkomulaginu þannig að þær sem ætli að starfa sem ljósmæður ákveði það fyrr í ferlinu. Á sama tíma sé það afar hentugt að vera hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og líklegra þannig að fá til dæmis vinnu á landsbyggðinni. Það sé ólíklegt að í litlum byggðarlögum sé fullt starf fyrir ljósmæður.
„Það er mjög gott að vera hjúkrunarfræðingur líka.“
Unnur Berglind segir oft mikið álag á konum sem sinni ljósmæðrastarfinu utan höfuðborgarsvæðisins. Þær sinni oft dreifbýlum svæðum og séu í raun alltaf á vakt þótt þær séu ekki á launum. Hún segir að í draumaheimi væru tvær ljósmæður á hverjum stað sem geti leyst hver aðra af. Konur gætu þá þekkt sínar ljósmæður og myndað við þær tengsl.