Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar til fréttastofu. Þar segir að með hækkandi sól vilji gestir gjarnan njóta matar og drykkja utandyra við veitingastaði, en til að svo sé heimilt þurfi slíkt að vera tilgreint á útgefnu rekstrarleyfi veitingastaða. Samhliða rekstrarleyfi til útiveitinga þurfi að liggja fyrir starfsleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum og afnotaleyfi sveitarfélags vegna borgar/bæjarlands ef það á við. Athugasemdir hafi verið gerðar á um helmingi veitingastaðanna sem lögreglan hefur heimsótt undanfarið.
Vísir greindi frá því í um helgina að gestum Kaffibrennslunnar hefði verið vísað inn af útisvæði staðarins þegar í ljós kom að tilskilin leyfi til útiveitinga væru ekki til staðar. Meðal annarra staða sem fengu heimsókn frá lögreglunni voru Hús Máls og menningar og Lebowski.
Í tilkynningunni segir að veitingamenn hafi tekið afskiptunum vel, en þeim hafi jafnframt verið góðfúslega bent á að sækja um leyfi til útiveitinga hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu. Sýslumaðurinn fari með stjórnsýsluákvarðanir í málum sem varða brot á rekstrarleyfi, en við slíkum brotum liggi sekt og/eða tímabundin svipting leyfis.
