Í yfirlýsingu frá þeim segir að Halla sé rétt kjörin forseti Íslands um kjörtímabil það er hefst 1. ágúst 2024 og lýkur 31. júlí 2028. Halla hlaut í kosningunum 33,9 prósent atkvæða eða alls 73.184 atkvæði. Alls greiddu 215.635 atkvæði í kosningunum. Gild atkvæði voru 214.320.
Með tilkynningunni fylgir kosningaskýrsla auk þriggja úrskurða nefndarinnar um ágreiningsatkvæði. Nefndin þurfti á fundi sínum í dag að fara yfir ágreiningsseðla í þremur kjördæmum. Einn í Norðvesturkjördæmi, 57 í Reykjavíkurkjördæmi norður og 59 ágreiningsseðla í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þrjú voru metin gild í Reykjavíkurkjördæmi suður og fjögur í Reykjavíkurkjördæmi norður. Auk þess var eitt atkvæði metið gilt í Norðvesturkjördæmi.

Yfirlýsing landskjörstjórnar í heild sinni:
Landskjörstjórn gjörir kunnugt: Kjör forseta Íslands fór fram 1. júní 2024. Við kjörið var í hvívetna gætt ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 17. júní 1944 og kosningalaga nr. 112, 25. júní 2021.
Halla Tómasdóttir hefur verið löglega kjörin forseti. Hún fullnægir skilyrðum stjórnarskrár lýðveldisins um kjör forseta Íslands. Samkvæmt þessu lýsir landskjörstjórn yfir að Halla Tómasdóttir er rétt kjörin forseti Íslands um kjörtímabil það er hefst 1. ágúst 2024 og lýkur 31. júlí 2028.