Hareide hefur verið sérfræðingur norska ríkissjónvarpsins (NRK) í kringum leiki á EM í fótbolta sem fer fram í Þýskalandi þessa dagana og var Norðmaðurinn einmitt sérfræðingur sjónvarpsins í tengslum við leik sinna fyrrverandi lærisveina í danska landsliðinu gegn Slóveníu í lokaumferð C-riðils í gær.
Í þeim leik átti sér stað atvik þar sem að áhorfandi hljóp inn á völlinn. Slíkt hefur gerst áður í tengslum við fótboltaleik og verið nokkuð áberandi á Evrópumótinu þetta árið.
Óhætt er að segja að Hareide sé ekki hrifinn af þessu athæfi og vill að komið sé í veg fyrir að einstaklingar geti hlaupið inn á völlinn.
„Ég skil ekki hvernig þeir (öryggisverðirnir) ná þeim ekki. Þeir hafa of litla stjórn á aðstæðunum utan vallar,“ sagði Hareide á NRK í gær. „Þetta býður hættunni heim. Ímyndið ykkur ef þessir einstaklingar grípa í leikmenn eða dómara á vellinum. Það yrði ekki gott. Þess vegna þarf að ná stjórn á þessu. Lífshættulegt athæfi.
Og Hareide hélt romsu sinni áfram í umræðum í norska sjónvarpinu eftir leik í gærkvöldi.
„Þetta er lífshættulegt. Maður veit aldrei. Kannski hleypur einhver brjálæðingur inn á völlinn og ræðst á leikmann eða dómara. Við þurfum að koma í veg fyrir þetta.“