Biden, sem er orðinn 81 árs, mun þurfa að sannfæra bandarísku þjóðina um að þrátt fyrir háan aldur og að hafa sýnt ummerki um heilsubrest sé hann í stakk búinn til að halda embætti.
Kviðdómur í New York sakfelldi Trump í síðasta mánuði fyrir að hylma yfir greiðslur til klámstjörnunnar Stormy Daniels fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Með því varð hann fyrsti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sem hefur verið sakfelldur í sakamáli. Eflaust eitthvað sem hann mun þurfa að svara fyrir.
Búist er við að innflytjendamál, þungunarrof, hækkandi glæpatíðni og velferðarmál verði ofarlega á baugi í kappræðunum. Biden muni herja á Trump í tengslum við stefnur hans tengdar þungunarrofi og Trump herji á Biden í tengslum við streymi innflytjenda inn í landið, sem hann segir hafa farið fram úr öllu hófi.
Samkvæmt könnun sem AP framkvæmdi eru báðir frambjóðendur óvinsælir meðal meiri hluta bandarísku þjóðarinnar og búast má við að þeir mæti miklum mótvindi úr gagnstæðum fylkingum. Þá sýna kannanir að kjósendur hafi meiri áhyggjur af háum aldri Biden, en hann er þremur árum eldri en Trump.
Kappræðurnar eru einnig þær fyrstu í ríkinu þar sem fyrrverandi og núverandi forseti mætast. Frambjóðendurnir fá níutíu mínútur í kappræðurnar sem fara fram klukkan níu í kvöld að staðartíma en klukkan eitt í nótt á íslenskum tíma.