Máni gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir heimamenn á aðeins sjö mínútna kafla í leik dagsins.
Það var þó Kristófer Orri Pétursson sem kom gestunum í Gróttu yfir á 16. mínútu áður en Orri Þórhallsson jafnaði metin fyrir Fjölni sex mínútum síðar og staðan í hálfleik var því 1-1.
Í síðari hálfleik var svo komið að Mána. Hann kom Fjölnismönnum yfir á 56. mínútu, skoraði þriðja mark liðsins fjórum mínútum síðar og á 64. mínútu fullkomnaði hann þrennuna með marki úr vítaspyrnu.
Sigurvin Reynisson bætti svo fimmta marki Fjölnis við á 75. mínútu áður en Pétur Theódór Árnason klóraði í bakkann fyrir gestina fimm mínútum fyrir leikslok.
Niðurstaðan því 5-2 stórsigur Fjölnis sem nú situr á toppi Lengjudeildarinnar með 23 stig eftir tíu leiki. Grótta situr hins vegar í áttunda sæti með tíu stig.
Upplýsingar um atvik og markaskorara fengust á Fótbolti.net.