„Það kom leki í bát sem staðsettur var um fimm mílum norðaustur af Gróttu og virðist leka talsvert. Við kölluðum út þyrlu og fáum skip Landsbjargar frá Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði á staðinn líka,“ segir Viggó í samtali við fréttastofu.
Hann segir að um 40 mínútum eftir að útkallið kom hafi fyrstu menn verið komnir á staðinn. Það sjáist talsverður leki. Sigmenn úr þyrlu hafi þá farið um borð og skoðað skipverjann og metið það svo að það þurfi að flytja hann á spítala. Þangað var hann kominn um klukkustund eftir að útkallið barst.

Eftir það fóru menn úr Landsbjargarskipunum um borð með dælur og dældu mesta vatninu úr bátnum og þéttu svo lekann.
„Svo draga þeir hann til hafnar í Hafnarfirði,“ segir Viggó og að þangað hafi þeir verið komnir um fimm tímum eftir að útkallið bara. Hann segir aðgerðina hafa gengið vel fyrir sig og fljótt þó svo að hún hafi tekið nokkra klukkutíma.
Hann segir ekki liggja fyrir hvað kom fyrir manninn um borð og að hann viti ekki meira um líðan hans.
Viggó segir að hættan hafi verið töluverð.
„Þegar það er komið svo mikið af sjó í bátinn að það er komin slagsíða, hann er farinn að halla. Þá er stöðugleikinn skertur og þá veit maður ekki hversu langt er í að það klárist. Að báturinn sökkvi hreinlega. Við kölluðum því alla út á hæsta forgangi. En þetta slapp fyrir horn.“