Þar með hefur Rosengård ekki enn stigið feilspor á þessu tímabili og unnið alla fimmtán leiki sína, og Guðrún og stöllur hennar í vörninni hafa aðeins fengið á sig fjögur mörk allt tímabilið.
Það gekk þó hægt að skora gegn Vittsjö í dag en Rebecca Knaak kom Rosengård yfir á 72. mínútu, og bætti við öðru marki skömmu síðar. Olivia Holdt skoraði svo þriðja markið í uppbótartíma.
Þrjár íslenskar landsliðskonur voru svo í liði Kristianstad sem varð að sætta sig við 2-0 tap á útivelli gegn Norrköping, sem fyrr í dag tilkynnti um komu Sigdísar Evu Bárðardóttur frá Víkingi. Sigdís var þó ekki með í kvöld.
Guðný Árnadóttir, Katla Tryggvadóttir og Hlín Eiríksdóttir voru allar í liði Kristianstad en liðið lenti undir á 62. mínútu þegar Wilma Leidhammar skoraði, og Alexandra Hellekant innsiglaði sigurinn seint í uppbótartíma.
Kristianstad er með 26 stig í 4. sæti, nítján stigum á eftir toppliði Rosengård sem er nú með níu stiga forskot á næsta lið, Häcken. Norrköping er með 20 stig í 7. sæti og Vittsjö með 14 stig í 9. sæti.