Þrátt fyrir skelfilegar aðstæður í Palestínu vegna innrásar Ísraelshers og eilífra sprengjuárása þá hefur það ekki stöðvað íþróttafólk landsins að elta drauma sína. Allavega þau sem eru enn á lífi. Samkvæmt frétt AP fréttastofunnar hafa alls 300 íþróttamenn, dómarar, þjálfarar og aðrir sem tengjast íþróttahreyfingunni dáið síðan Ísraelsher réðst inn í Palestínu.
Nær allur innviður landsins er kemur að íþróttum hefur verið eyðilagður og hefur íþróttafólk sem hafðist við á Gasasvæðinu þurft að yfirgefa svæðið til að iðka íþrótt sína.
Í frétt AP segir að alls séu sex keppendur á leiðinni á leikana frá Palestínu, er það fjölgun um einn frá því á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Omar Ismail mun keppa í taekwondo, Jorge Antonio Salhe mun keppa í skotfimi, Yazan al Bawwab og Valerie Tarazi munu keppa í sundi, Fared Badawi í júdó og Wasim Abusal í hnefaleikum.
Aðeins 26 Palestínumenn hafa keppt fyrir hönd þjóðar sinnar í sögu Ólympíuleikanna.