Jóhannes var gestur í Reykjavík Síðdegis fyrr í dag. Sindri Sindrason þáttastjórnandi sagði þar sögu af nýlegu ferðalagi hans til Siglufjarðar, þar sem hann gisti eina nótt á hóteli, og greiddi fyrir það 37 þúsund krónur. Herbergið var ekki með sérbaðherbergi og morgunmatur var ekki innifalinn. Sindri segir ekkert skrítið að útlendingar fari frekar annað en til Íslands.
Talsvert hefur borið á afbókunum erlendra ferðaskrifstofa, meira en búist var við segir Jóhannes. Nú auglýsi íslensk hótel tilboð í gríð og erg, en Jóhannes hvetur Íslendinga til að hringja beint í hótelin og athuga hvort eitthvað tilboð sé í gangi. Þau komi ekki endilega fram á bókunarsíðum eins og booking.com.
Kemur ekkert sérstaklega á óvart
Jóhannes segir þetta ekki koma neitt sérstaklega á óvart. „Ísland hefur verið einn af þremur dýrustu áfangastöðum heims í tíu ár eða svo. Það er alveg klárt mál að við erum með þannig ferðaþjónustumarkað að framboðið hér af gistingu er lítið,“ segir Jóhannes.
Þótt okkur finnist tvær milljónir ferðamanna á ári vera mikið, sé það örlítill áfangastaður í heildarsamhenginu. Miklu fleiri milljónir komi árlega til dæmis til Parísar eða Barcelona.
Ferðamönnum finnist sérstakt að koma til Íslands
Það fari bara eftir því að hverju maður er að leita, hvort maður sé tilbúinn til að eyða þessum gríðarlegu upphæðum til að ferðast til Íslands.
„Það hefur sýnt sig að ferðamenn vilja koma til Íslands og greiða þessi verð fyrir þessa upplifun, að koma til Íslands. Þeim finnst það vera eitthvað sérstakt,“ segir Jóhannes.

Hins vegar séum við í þeirri stöðu að verð hér er almennt dýrara en á öðrum stöðum. Ekki bara dýrasti ferðastaður í heimi, heldur bara dýrt land til að búa í.
Hér séu hæstu meðallaun í Evrópu, og hæstu lágmarkslaunin í Evrópu. Þetta leggist allt saman og valdi gríðarlega háu verði.
Verðin hafi lækkað hjá samkeppnislöndum
Jóhannes segir að í samanburði séum við orðin heldur dýrari en til dæmis Noregur, Finnland og Svíþjóð. „Verðin hjá þeim hafa lækkað, þau hafa staðið sig betur í markaðssetningu, og þar hefur verðbólgan ekki verið eins þrálát og hér,“ segir Jóhannes. Við séum að tapa samkeppnishæfni í verði.
Hann segir ferðaþjónustu á Íslandi einfaldlega vera þannig að hún kostar. Það kosti að hafa fólk í vinnu og í ferðaþjónustu þurfi að hafa margt fólk í vinnu. „Ferðaþjónustan getur ekki tæknivæðst eins og aðrar greinar og fækkað höndum, og því betri þjónustu sem þú vilt veita, því fleiri hendur þarftu.“
„Almennt séð er ferðaþjónusta á Íslandi í töluvert háum gæðum, og það kemur bara fram einfaldlega í því sem ferðamennirnir segja þegar þeir fara héðan í landamærakönnun ferðamálastofu,“ segir Jóhannes. Þar sé einhver kvarði um það hvort fólk mæli með upplifuninni að fara til Íslands, og skalinn sé frá mínus 100 upp í hundrað. Þar hafi Ísland verið að skora milli 76 og 86 stig.