Þann 28. júní létust tveir þegar húsbíll og tvö bifhjól skullu saman á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, á nýlögðu malbiki. Í ljós kom að malbikið þar sem slysið varð stóðst ekki staðla útboðsskilmála um viðnám, og var mun hálla en Vegagerðin ætlaðist til.
Í síðustu viku greindi mbl frá því að héraðssaksóknari hefði fellt niður mál í tengslum við banaslysið. Þar segir að við rannsókn málsins hafi starfsmaður verkkaupa, verkstjóri slitlagningar, eftirlitsmaður og deildarstjóri framleiðsludeildar hjá framleiðanda malbiksins haft réttarstöðu sakbornings.
Niðurstaða héraðssaksóknara var hins vegar sú að ekki hafi verið talið að þau gögn sem komu fram hafi verið nægileg eða líkleg til sakfellis. Málið hafi því verið fellt niður.
Fáránlegt að enginn beri ábyrgð
Atli Már Jóhannsson er einn skipuleggjanda viðburðarins. Hann segir algjörlega fáránlegt að enginn sé dreginn til ábyrgðar. „Vegamálastjóri viðurkenndi þessi mistök á sínum tíma. Það er engann vegin ásættanlegt að svona geti gerst og enginn taki ábyrgð á því,“ segir Atli.
Málið sé í raun og veru ekkert flóknara en það. Mótmælin snúist um að einhver taki ábyrgð á því að lagt hafi verið gallað malbik, sem leiddi til banaslyss. Hann vonar að sem flestir mótorhjólamenn sjái sér fært að mæta.
Sjá viðburðinn á Facebook.