Þríþrautarkeppnin fékk loksins grænt ljós í nótt og Rider mun því stinga sér til sunds á eftir.
Eins og hjá okkar Guðlaugu Eddu Hannesdóttur þá hefur allt þríþrautarfólkið á Ólympíuleikunum þurft að vakta nýjustu mælingar á bakteríum í ánni Signu.
Keppnin fékk grænt ljós
Æfingum var frestað tvo daga í röð vegna of mikils magns baktería í ánni og þá var einnig keppni karlanna færð aftur um einn dag af sömu ástæðu. Í nótt mældist styrkur bakteríanna það lítill að keppnin fékk loksins grænt ljós.
Þríþrautarfólkið hefur unnið að því í mörg ár að undirbúa sig fyrir keppnina en hún var nánast orðin að hálfgerðum farsa þökk sé þrjósku keppnishaldara að halda hana í Signu. Það hafði verið bannað að synda í hundrað ár í ánni vegna mengunar.
Keppendur líta örugglega misjafnlega á þessa stöðu mála. Seth Rider býst sjálfur við því að þurfa að synda meðal E. Coli bakteríanna í Signu og segist því hafa farið öðruvísi leið að því að undirbúa líkamann sinn fyrir sundið í Signu.
Sleppum ekki við E. Coli bakteríur
Hann sagði frá taktík sinni í undirbúningi fyrir keppnina.
„Við vitum vel að við sleppum ekki við að fá í okkur eitthvað af E. Coli bakteríum í sundinu þannig að ég er bara að reyna að byggja upp þol líkamans fyrir E.Coli bakteríunum. Ég geri það með því að kynna hann fyrir svolítið af E.Coli bakteríum á hverjum degi,“ sagði Seth Rider.
„Ég geri það meðal annars með því að þvo ekki hendurnar eftir að hafa farið á klósettið og annað slíkt,“ sagði Rider.