Þetta var fyrsta tap Norðmanna í B-riðli en þeir eru samt í 2. sæti hans með sex stig og komnir áfram. Danir eru með fullt hús stiga á toppi riðilsins en Egyptar eru með fimm stig í 3. sætinu og Frakkar í því fjórða með þrjú stig.
Yahia Omar fór á kostum í liði Egyptalands í kvöld og skoraði sjö mörk og gaf átta stoðsendingar. Ahmed Adel og Ahmed Heshem skoruðu fjögur mörk hvor.
Harald Reinkind skoraði sjö mörk fyrir Noreg en miklu munaði um að Sander Sagosen náði sér ekki á strik og klikkaði á fimm af sjö skotum sínum.

Í A-riðli vann Slóvenía nauman sigur á Japan, 28-29. Þetta var annað eins marks tap Japana á Ólympíuleikunum en á laugardaginn töpuðu þeir fyrir Króötunum hans Dags Sigurðssonar, 30-29.
Aleks Vlah fór hamförum í liði Slóvena og skoraði fjórtán mörk. Hann vantaði aðeins eitt mark til að jafna markamet Jerzeys Klempel á Ólympíuleikum.
Kosuke Yasuhira skoraði átta mörk fyrir Japan og Naoki Fujisaka sex. Japanir eru án stiga á botni A-riðils en Slóvenar eru með sex stig í 2. sæti hans, jafn mörg og Þjóðverjar, og komnir áfram.